Hreindýr í hrakningum

Hreindýr1 (Custom)Undanfarnar vikur hafa reglulega birst fréttir um kindur í sjálfheldu á klettasyllum og um hesta sem komast ekki niður af fjalli. En hreindýrin hafa ekki heldur átt sjö dagana sæla í aftakaveðrunum sem hafa verið ríkjandi upp á síðkastið. Það voru þrír hreindýrskálfar á túninu á sandinum. Þeir höfðu verið þar lengi, allavega frá því fyrir jól en kannski jafnvel frá því í nóvember. Þeir voru upphaflega í stórum hreindýrahóp sem hélt sig lengi á þessu túni en urðu eftir á túninu þegar hópurinn færði sig eitthvað annað, því þeir treystu sér ekki yfir girðinguna. Við opnuðum hliðið í þeirri von að þeir myndu rata út en það gerðist ekki. Einnig var reynt að reka þá út af túninu en það tókst ekki heldur. Í morgun fórum við að kanna hvernig hreindýrin hefðu það. Það kom í ljós að það voru einungis tvö dýr eftir. Annað lá á hliðinni og var nýlega dautt. Veislumatur fyrir hrafna – þeir voru þegar búnir að kroppa í það. Hitt lá nálægt dauða félaga sínum og virtist vera nokkuð hresst. Túnið var orðið hálfgert skautasvell Hreindýr-2 (Large)og það var ekkert eftir að bíta. Það var greinilega orðið mjög áríðandi að koma dýrinu út úr þessari dauðagildru, annars myndi það fara sömu leið og félagi sinn. Við tók mikill eltingaleikur. Við reyndum að reka dýrið út um hliðið en það treysti sér greinilega ekki til þess að fara þar út. Eftir margar tilraunir breyttum við um taktík. Nú reyndum við að reka dýrið inn í fjárrétt og ná því þar. Eftir margar mislukkaðar tilraunir komum við dýrinu inn í réttina en það náði samt að hoppa út aftur. Það var svo hvasst og svo hált að dýrið rann stundum stjórnlaust afturábak yfir svellið. Hreindýr-3 (Large)Loksins náðum við að króa dýrið af í horni túnsins. Það var orðið svo þrekað og örmagnað að það var frekar auðvelt að grípa það og teyma það að bílnum. Hundurinn var settur í aftursætið og hreindýrið sett í hundageymsluna. Nú var spurningin hvað við ættum að gera við dýrið. Ættum við að setja það inn í fjárhúsin og fóðra það? Hinn kosturinn var að reyna að finna hreindýrahóp og sleppa kálfinum nálægt honum. Svo rúntuðum við um Lónið með hreindýrskálf í skottinu og ekki heyrðist múkk í dýrinu. Þetta var fallegur kálfur, með stór Bamba-augu og blautt nef. Sem betur fer fundum við fljótlega um 40-50 dýra hjörð,  við Karl. Þau voru á góðum stað, þar var gott skjól og nóg að bíta. Við slepptum því kálfinum, sem hjlóp strax til hinna dýranna. Vonandi hefur okkur tekist að bjarga honum og hann lifi af veturinn! Það hefði annars getað lítið illa út, ef við hefðum verið stoppað af lögreglu, með hreindýr í skottinu... Sé nú eftir því að hafa ekki tekið einhverjar nærmyndir af dýrinu, því ekki fær maður oft tækifæri að koma svona nálægt hreindýri.
mbl.is Kindurnar heimtar úr helju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þetta hefur verið ævintýri. Ekki verið svo vitlaust að taka litla bamba á hús sem fyrsta dýrið á hreindýrabúgarði.

Gunnlaugur B Ólafsson, 18.2.2008 kl. 22:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband